
Tengslin við heimilin trosnuðu merkilega lítið í fyrstu bylgju COVID-19: Sjónarhorn stjórnenda og grunnskólakennara
Author(s) -
Kristín Jónsdóttir
Publication year - 2021
Publication title -
netla
Language(s) - Ngandi
Resource type - Journals
ISSN - 1670-0244
DOI - 10.24270/serritnetla.2020.21
Subject(s) - physics , humanities , art
Viðvera nemenda var minnkuð í langflestum grunnskólum vorið 2020 þegar fyrsta bylgja COVID-19 gekk yfir en á móti kom að upplýsingagjöf til foreldra var aukin og fjarkennsla tekin upp. Skipulag viðveru og fjarkennslu var mismunandi milli skóla og sveitarfélaga en allir væntu þess að nemendur lærðu heimavið.Þessi rannsókn beinist að viðhorfum skólastjórnenda og kennara. Þeir svöruðu spurningakönnun í apríl 2020 en svör bárust frá 151 grunnskóla af 170 skólum á landinu öllu. Niðurstöður sýndu að stjórnendum og kennurum var ljóst að aðstæður nemenda til náms heimavið væru mismunandi. Þeir lögðu mikla vinnu í að halda uppi kennslu og búa nemendur út með námsefni og verkefni. Kennarar vörðu meiri tíma en í venjulegu árferði í undirbúning kennslu og kennsluna sjálfa, sem og í upplýsingamiðlun og samskipti við heimilin. Stjórnendur og kennarar voru ánægðir með hvernig kennslan var á heildina litið en þeim fannst nokkuð skorta á að þátttaka foreldra í námi barna sinna væri eins góð og kennslan á þessum tíma. Bæði kennarar og stjórnendur lýstu áhyggjum af slakri mætingu nemenda af erlendum uppruna og þeirra sem hafa veikt bakland. Tengsl skóla og heimila styrktust frekar en veiktust á þessu tímabili þrátt fyrir álag í samfélaginu. Ályktun höfundar byggir á að (1) starfsfólk skóla lagði sig fram um að halda skólunum opnum og stýra góðri og vel undirbúinni kennslu af fagmennsku um leið og það fékk skýrari mynd af aðstæðum nemenda heimavið; (2) svo virðist sem foreldrar hafi fengið meiri innsýn í fjölbreytt og krefjandi viðfangsefni grunnskólanáms og oftast sýnt skólafólkinu þakklæti og virðingu; (3) samskipti heimila og skóla jukust verulega í flestum tilvikum og kennarar og foreldrar unnu saman eftir nýjum leiðum. Tengsl kennara við nemendur úr viðkvæmum hópum rofnuðu frekar en við skólasystkin þeirra svo neikvæð áhrif fyrstu bylgju faraldursins virðast hafa bitnað harðast á þeim