
Nemendamiðað námsumhverfi: Hugmyndir framhaldsskólanemenda um kjöraðstæður til náms
Author(s) -
Anna Kristín Sigurðardóttir,
Sigrún Harpa Magnúsdóttir
Publication year - 2020
Publication title -
netla
Language(s) - Ngandi
Resource type - Journals
ISSN - 1670-0244
DOI - 10.24270/serritnetla.2019.2
Subject(s) - physics , chemistry
Í þessari rannsókn er leitast við að varpa ljósi á hugmyndir framhaldsskólanemenda um kjöraðstæður til náms samanborið við þær aðstæður sem þeir búa við og möguleika þeirra til að hafa áhrif þar á. Áhrif nemenda á eigið námsumhverfi tengjast hugmyndum um nemendamiðað nám og þeim er meðal annars ætlað að efla skuldbindingu nemenda gagnvart skólastarfinu. Gögnum var safnað í níu framhaldsskólum með viðtölum, vettvangsathugunum í skólastofum og ljósmyndum. Tekin voru hópviðtöl við nemendur og þeir beðnir að forgangsraða myndum af ýmsum aðstæðum í skóla með hliðsjón af því hvernig þær hentuðu við nám að þeirra mati. Niðurstöður úr þeirri umræðu voru bornar saman við aðstæður eins og þær birtust rannsakendum í skólastofunni. Helstu niðurstöður benda til þess að algengast sé að í kennslustundum sitji nemendur við einstaklingsborð í röðum þar sem allir snúa andliti í sömu átt, vel þekktar aðstæður í íslensku skólaumhverfi. Nemendum fannst aftur á móti best að læra í umhverfi þar sem þeir hefðu einhvers konar svigrúm, til dæmis val um það hvort þeir ynnu sjálfstætt eða með öðrum. Þeir kusu síður námsumhverfi sem var í föstum skorðum og gerði ráð fyrir einhæfum námsaðferðum, eins og algengast var í þátttökuskólunum. Það er von höfunda að niðurstöðurnar megi hafa til hliðsjónar við að hanna og bæta námsumhverfi nemenda með aukinni áherslu á lýðræðislega þátttöku þeirra og möguleika til að hafa áhrif á aðstæður sínar. Vísbendingar eru úr öðrum rannsóknum um að slíkt geti eflt skuldbindingu þeirra gagnvart náminu og þar með hugsanlega dregið úr brotthvarfi.