
„Þessi týpíska óörugga stelpa“: Greining á sögum ungra kvenna um holdafar og stefnumót
Author(s) -
Sólveig Sigurðardóttir,
Annadís Greta Rúdólfsdóttir
Publication year - 2020
Publication title -
netla
Language(s) - Ngandi
Resource type - Journals
ISSN - 1670-0244
DOI - 10.24270/netla.2019.13
Subject(s) - physics , theology , nuclear chemistry , chemistry , philosophy
Markmið þessarar rannsóknar var að greina hugmyndir ungra kvenna (18-24 ára) um vægi holdafars í tengslum við stefnumót. Fræðilega sjónarhornið er femíniskur póststrúktúralismi en gagna var aflað með sögulokaaðferð þar sem þátttakendur fengu upphaf að sögu sem þeir voru beðnir um að ljúka. Þátttakendur fengu ýmist söguupphaf þar sem söguhetja, sem var að fara á stefnumót, hafði grennst eða fitnað. Alls voru 72 sögur þemagreindar. Í sögum þátttakenda voru póstfemíniskar hugmyndir áberandi en fjögur þemu voru greind: (1) Líkaminn má ekki valda (honum) vonbrigðum. Þar kom fram að grannir líkamar hafa meira virði en feitir á vettvangi stefnumótamenningar og að það sé á ábyrgð sögupersónunnar að tryggja að virði hans sé sem mest. (2) Sjálfstraust og líðan tengist ánægju sögupersónu með útlit sitt. Í því þema kom fram að tilhugsunin um að fitna eða vera feit fyllti sögupersónuna kvíða og óöryggi. Þegar hún grenntist einkenndust sögurnar aftur á móti af gleði og aukinni eftirvæntingu fyrir stefnumótinu. Nokkrar sögur greindu einnig frá vonleysi sögupersónunnar þegar hún áttaði sig á því að sama hversu mikið hún grenntist þá var það aldrei nóg. (3) Líkaminn og sjálfið sem verkefni. Í því þema kom fram að vinnan og eftirlitið með líkamanum er stöðugt ferli og ekki hægt að slá slöku við. (4) Andóf gegn útlitskröfum felst í að taka líkamann í sátt. Í því þema mátti greina andóf gagnvart ríkjandi útlitskröfum, sérstaklega í sögum þar sem sögupersónan hafði fitnað. Áhersla var lögð á að gefa ríkjandi hugmyndum langt nef og taka líkama sinn í sátt. Rannsóknin gefur innsýn í flókin tengsl ungra kvenna við menningarbundnar hugmyndir um líkamann og hversu mikillar vinnu við líkamann kvenleikinn krefst af þeim. Hún sýnir einnig hversu gagnleg sögulokaaðferðin er til að fá innsýn í kynjaðar menningarbundnar hugmyndir og þau tök sem þær hafa á ungum konum.